149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[16:46]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Mér finnst samlíking hans góð um hversu mikilvægt það er að stíga ölduna og mæta því sem að höndum ber, t.d. í sjávarútveginum. Við getum tengt það umræðunni vegna þess að ljóst er að þessi ríkisstjórn stígur ekki ölduna eins og henni ber að gera í svo mikilvægu og stóru hagsmunamáli, eins og rakið hefur verið. Hv. þm. Ólafur Ísleifsson kom réttilega inn á þetta og skýrði á mjög einfaldan hátt hversu miklir hagsmunir eru í húfi.

Ég vil líka koma inn á það sem hv. þm. Bergþór Ólason nefndi, sem mér fannst mjög athyglisvert. Hann varpaði þeirri spurningu fram hvaða áhrif þetta gæti haft á aðra hagsmunagæslu íslenska ríkisins. Það að gefa svona eftir í málinu spyrst í fyrsta lagi út og þegar við stöndum síðan frammi fyrir erfiðum samningaviðræðum síðar, hugsa menn þá ekki með sér: Ja, þeir munu hvort sem er gefa eftir á endanum?

Við stöndum t.d. frammi fyrir mjög alvarlegu máli, sem er innflutningur á hráu kjöti og eggjum til landsins, sem mun hafa veruleg áhrif á íslenskan landbúnað. Maður spyr sig þá: Var það kannski bara vegna þess að menn vissu að íslensk stjórnvöld myndu ekki sporna nægilega við því, eins og hefði átt að gera? Þetta hefur allt saman áhrif.

Kjarni málsins er í mínum huga sá að verið er að fara úr landinu með allt önnur kjör en lagt var upp með. Verið er að verðlauna þá sem voru erfiðastir. (Forseti hringir.) Það hlýtur eitthvað að búa að baki því sem við höfum ekki fengið að vita.