149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[17:15]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er alveg laukrétt hjá hv. þingmanni. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson rakti ágætlega áðan hvernig Seðlabankinn hleypti út sjóðum á sínum tíma sem áttu frekar litlar eignir en sagði hins vegar að það verð sem upp var sett myndi duga fyrir alla, þ.e. allir sjóðirnir og allir hagsmunaaðilar voru færðir niður á lægsta þröskuld.

Frú forseti. Í sjálfu sér held ég að hér sjáum við dæmi um nokkuð sem hefur gerst áður, því að við Íslendingar höfum áður haft hagsmunagæslumenn sem sömdu frá sér ævintýraleg mál af því að þeir nenntu ekki að hafa þau hangandi yfir sér, eins og frægt er orðið. Ég held að þeir ágætu aðilar sem koma að þessu máli fyrir Íslands hönd hafi orðið fyrir snerti af því, þeir hreinlega nenni ekki að hafa þetta mál hangandi yfir sér lengur og séu þess vegna til í „að leysa það“ í eitt skipti fyrir öll, hvað sem það kostar íslensku þjóðina. Því miður.

Þetta er náttúrlega til þvílíkra vansa að við verðum að halda því lifandi ef málið „tapast“ í dag, ef það kemst í gegnum þingið, sem ég vona að verði ekki og við munum náttúrlega kappkosta að gerist ekki. Þetta eru svo óendanlega vond skilaboð út í fjármálaheiminn sem er ekkert elskuvina-bandalag. Hrói höttur er ekki lifandi lengur og hann starfar ekki í banka eða vogunarsjóði. Þetta eru slæm skilaboð til þeirra sem eiga eftir að reyna að gera Íslandi skráveifu í framtíðinni. Það er búið að sýna að íslenska ríkisstjórnin stendur ekki í lappirnar.