149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[17:55]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég held að við séum alveg sammála um það að vaxtastig á Íslandi sé allt of hátt. Það sem mig langar að velta upp við þingmanninn er að nú hefur verið bent á það í þessum umræðum að munurinn á því gengi sem nú virðist eiga að selja þetta á eða leyfa mönnum að leysa þetta út á og því sem menn fengu 2017 er 10–12 milljarðar, eitthvað slíkt.

Ég fór að velta fyrir mér hvort þetta sé hreinlega eitthvert innlegg sem geti haft leiðindaáhrif á kjarasamningaviðræður þegar menn sjá að þarna er verið að fórna milljörðum á milljarða ofan þegar þeir eru að reyna að sækja fjármuni til ríkisins. Þá er ég ekki að taka neina afstöðu til kjarasamningaviðræðna, ég er bara að velta þessu upp.

Það kemur líka fram, virðulegi forseti, á fyrstu síðu í nefndarálitinu að Seðlabankinn talar um að markaðsaðilar hafi kvartað yfir skorti á framboði erlends fjár á innlendum skuldabréfamarkaði. Er verið að bregðast við þörf markaðsaðila með þessu frumvarpi?