150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

áhrif Covid-19 á atvinnulífið.

[10:36]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég hef kynnt mér þær hugmyndir, og eins og hv. þingmaður kom inn á líka eru ekki mörg ár síðan við tókumst á við fordæmalausar aðstæður, í efnahagshruninu, bankahruninu og efnahagskrísunni, og að sjálfsögðu getum við notað eitthvað þar, þá til að mynda hvað varðar ferðaþjónustuna, sem ég hef kannski mestar áhyggjur af svona til að byrja með í þessum efnahagsþrengingum vegna þess að við erum það háð þeirri grein. Við erum eyja og flug er kannski það sem margir óttast þessa dagana. Þá hafa menn nú þegar verið með plön uppi um að fara í stefnumótun í markaðssetningu í ferðaþjónustu en velja þarf réttan tíma. Það er kannski ekki skynsamlegt að fara í það núna þegar við erum á leið niður í einhvern dal en vera hins vegar undirbúin þegar það er tilbúið. Þannig getum við þurft að horfa á og taka utan um hverja atvinnugreinina á fætur annarri í kjölfarið. Við eigum einfaldlega að leita allra leiða til að auka tekjur samfélagsins bæði núna og til lengri tíma og fara í framkvæmdir sem kalla bæði á mannafla og hugsanlega þá færslu á milli atvinnugreina sem munu síðan styðja okkur við útflutningstekjur og tekjur þjóðarbúsins á næstu árum.