150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

undirboð í ferðaþjónustu.

[10:37]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Útbreiðsla kórónuveirunnar er farin að hafa víðtæk áhrif, m.a. á ferðaþjónustu víða um heim og þar með talið á Íslandi. Með fækkandi ferðamönnum, ekki síst þegar það gerist skyndilega, harðnar samkeppnin og fyrirtækin leita allra leiða til að spara.

Það hefur verið töluverð umræða hér á landi síðustu ár um starfsemi og undirboð erlendra rútufyrirtækja. Það er alls ekki ástæða til að alhæfa um þau öll en gagnrýnin hefur kannski snúið að því að þau fyrirtæki sem vilja koma sér undan því að vera hér í eðlilegri og heiðarlegri samkeppni við íslensk fyrirtæki hafa kannski getað gert það óþarflega auðveldlega. Íslenskir ferðaþjónustuaðilar eru langt frá því að vera þeir einu með þessar áhyggjur og í Danmörku hafa yfirvöld brugðist við með því, og gerðu rétt fyrir síðustu áramót, að breyta túlkun á reglugerð Evrópusambandsins sem nær til gestaflutninga og takmarka þannig þann starfstíma sem erlendar rútur geta verið í landinu niður í sjö daga og herða skráningu. Ekki síst hafa þau hert viðurlög við brotum á þessum reglum með kyrrsetningu rúta og töluvert háum sektargreiðslum. Þeir sem þekkja til í danskri ferðaþjónustu segja að þessar aðgerðir hafi skilað góðum árangri gegn þessari svokölluðu sjóræningjastarfsemi.

Nú er svo komið að ferðakaupstefnur svokallaðar hafa verið mjög uppteknar af neikvæðum áhrifum kórónuveirunnar á ferðaþjónustuna. Það er einfaldlega slagur fram undan, slagur sem við Íslendingar munum þurfa að taka þátt í. Það hafa komið upp áhyggjur af því að mörg fyrirtæki freistist í ljósi aðstæðna til að fara út á þessi svokölluðu gráu svæði. Þá er spurningin sú: Erum við eitt af þessum gráu svæðum í þessum bransa? Erum við tilbúin þar?

Undir lok síðasta árs kölluðu aðilar í Samtökum ferðaþjónustunnar eftir því að hér yrði farin svipuð leið og í Danmörku með hertu eftirliti með þessum erlendu rútufyrirtækjum. Mig langar því til að spyrja hæstv. samgönguráðherra — og ég átta mig á því að ég er hér eiginlega að biðja hann um að setja á sig hatt ferðamálaráðherra og mögulega fjármálaráðherra líka, en ég trúi því að hann standi undir þessu — um stöðuna hér. Erum við á einhvern hátt að bregðast við þessari stöðu og þá hvernig?