150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

undirboð í ferðaþjónustu.

[10:42]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það er gott að vita að þetta er í fullum gangi. Þessi umræða um að vera kaþólskari en páfinn hefur stundum komið upp hjá okkur og til að halda þeirri líkingu áfram þá eru Danir alveg ótrúlega trúlausir í þeim efnum. Þeir eru ansi lunknir við að finna leiðir og það er hollt og gott að líta stundum til þeirra vegna þess að þeir eru sannarlega Evrópusambandsland sem við erum ekki, því miður.

Ferðakaupstefnur eins og allar góðar kaupstefnur fara annars vegar fram á hinum opinbera vettvangi og svo eru það samtölin sem eiga sér stað í bakherbergjunum. Ástæða þess að ég kem hingað upp er sú að frá þessum kaupstefnum berast fréttir, sem eru ekkert sérlega góðar, af því að ákveðnir aðilar frá þessum löndum, sem við vitum að nýta sér þessi gráu svæði, flytji þau skilaboð að fjölga eigi rútum hér á landi vegna þess að hér sé þrátt fyrir allt enn hægt að fara þessa leið á meðan verið er að herða að annars staðar. Ég veit að Norðmenn eru t.d. að skoða það að koma á sambærilegu kerfi og Danir. Ég fagna því að verið er að vinna í þessu á fullu og ég vona að það komist til framkvæmda sem fyrst.(Forseti hringir.)

Ég veit að fyrir tveimur eða þremur árum óskaði ríkisskattstjóri eftir upplýsingum um erlend ferðaþjónustufyrirtæki, þar með talið rútufyrirtæki, hér á landi, og það er, (Forseti hringir.) eins og hæstv. ráðherra kemur inn á, töluvert flókið að sækja þessar upplýsingar. Kannast ráðherra við að þessar upplýsingar liggi fyrir hjá ríkisskattstjóra?