150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

flensufaraldur og fátækt.

[10:51]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Á mínum tíma í heilbrigðisráðuneytinu höfum við ráðstafað umtalsverðu fjármagni til að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga. Við höfum verið að horfa til heilsugæslunnar og til tannlækninga öryrkja og aldraðra sem hv. þingmaður og ég höfum rætt í þingsal áður. Við erum að tala um tilteknar aðgerðir til að draga úr greiðsluþátttöku að því er varðar hjálpartæki og að því er varðar stuðning við börn sem fæðast með klofinn góm og fjölskyldur þeirra. Allar þessar ákvarðanir sem hafa verið teknar eru til að bæta kjör almennings í landinu og til að draga úr hættu á því að almenningur búi við mismunun í aðgengi að heilbrigðisþjónustu vegna efnahags. Þetta veit hv. þingmaður að hefur verið mér mjög mikið hjartans mál og ég hef lagt mikla áherslu á þessa þætti í mínu starfi.

Hvað varðar einstakar ákvarðanir eða einstaka hópa og það sem hv. þingmaður er að spyrja um tel ég að þarna hljóti að vera um einhvern misskilning að ræða sem ég mun leita svara við.