150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

bætt uppeldi, leið til forvarna og lýðheilsu.

[11:19]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir þessa mikilvægu umræðu, að ræða um lýðheilsu í landinu. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur þingmenn að taka þá hluti mjög alvarlega eins og kom fram í framsöguræðu áðan og eins í svörum ráðherra.

Mig langar að gera að umræðuefni mínu á þeim stutta ræðutíma sem ég hef hvernig við þingmenn getum stuðlað að bættri lýðheilsu í þessu landi. Fyrir þinginu eru nokkrar tillögur um aukið aðgengi að eiturlyfjum með neyslurýmum sem eru með ótakmarkað aðgengi. Ef allir fengju aðgang að því myndi nýjum neytendum til glötunar fjölga. Píratar hafa lagt fram frumvarp um afglæpavæðingu eiturlyfjaskammta þar sem eru t.d. engin aldurstakmörk á því hverjir mega bera eiturlyfjaskammta. Börn í grunnskólum geta sem sagt verið með án þess að það sé ólöglegt að bera með sér eiturlyfjaskammta. Hvaða skilaboð eru það út í samfélagið að börn megi fara að bera eiturlyfjaskammta í skólum landsins?

Við erum að tala um að vera með auglýsingar á áfengi og heimsendingarþjónustu á áfengi, en enginn í þessum sal hefur komið með neina tillögu um að til að mæta því ástandi sem mun skapast þegar þessi lög verða samþykkt þurfi að auka meðferðarúrræði. Nú þegar eru fleiri hundruð manns á biðlistum eftir meðferð og hvað haldið þið að verði þegar afglæpavæðingin og neyslurýmin verða á öðru hverju götuhorni? Hvernig verður staðan þá? Það er enginn að koma með tillögu um að lýðheilsa þessa fólks verði tryggð með því að fá meðferð. Hvernig verður geðheilbrigðismálum á Landspítalanum háttað þegar þessi alda ríður yfir?

Ég segi: Við þurfum að mæta þeim lögum og þeim áhrifum sem við ætlum að hafa í samfélaginu (Forseti hringir.) með því að koma á meðferðarúrræðum fyrir þá sem falla í gryfjuna. (JÞÓ: Og segja sannleikann.)