150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

bætt uppeldi, leið til forvarna og lýðheilsu.

[11:24]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni og málshefjanda Unu Maríu Óskarsdóttur þessa sérstöku umræðu og hæstv. ráðherra Svandísi Svavarsdóttur innlegg hennar í umræðuna. Það er vel að við ræðum lýðheilsumál, jafnvel í auknum mæli frá því sem áður var. Ekki er langt um liðið síðan við tókum slíka umræðu með hæstv. ráðherra um forvarnir og heilsueflingu eldri borgara.

Í þessari umræðu er nálgun á þá sem yngri eru, börnin og uppeldi barna, og sannarlega á við að lengi búi að fyrstu gerð. Ég held að fullyrða megi að við erum að gera margt til að efla umgjörð og umhverfi sem styður við uppeldi barnanna okkar, hvort sem snýr að heilbrigðismálum, skólaumhverfi, tómstundum hvers konar eða íþrótta- og æskulýðsstarfi. Þeim peningum og tíma er vel varið og þroska með okkur skilning og þekkingu og ekki síst fullvissu um mikilvægi þess að gefa sér tíma fyrir dýrmætar samvistir sem rannsóknir staðfesta að séu afar mikilvægar með börnunum okkar og þáttur í því til lengri tíma að skapa jákvætt viðhorf gagnvart þeim. Það má sjá í stefnumótunarvinnu hæstv. heilbrigðisráðherra og hlutverki landlæknis og þeirri vinnu sem farið hefur fram í heilsueflandi samfélagi.

Það sem hefur breyst á umliðnum árum, virðulegi forseti, og ég fullyrði að er afar jákvæð þróun og mikilvægur liður í að styðja börnin, er aukin þátttaka foreldra í starfi barnanna okkar í skóla, tómstundum og íþróttum. Það er hvatning og um leið til þess fallið að auka sjálfstraust þeirra, sjálfsmynd og almenna vellíðan. Allar rannsóknir sýna að það dregur úr hvers kyns frávikshegðun.

Við eigum að leggja aukna áherslu á þetta og ég tek undir með þeim sem hafa nefnt hér aukinn efnahagslegan jöfnuð. Hann skiptir verulega miklu máli. Hæstv. ríkisstjórn hefur sýnt það í verki, m.a. með þverfaglegri nálgun, og hæstv. ráðherra fór hér yfir með samvinnu ráðherra eins og við sjáum til að mynda í verkefninu Barnvænt Ísland á vegum hæstv. félags- og barnamálaráðherra.