150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

bætt uppeldi, leið til forvarna og lýðheilsu.

[11:46]
Horfa

Una María Óskarsdóttir (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og vil reyndar segja að reynslusögur í uppeldismálum geta oft gert mikið gagn. Við getum lært af þeim sem segja okkur hvernig hvernig farið er að. Það sem hér er undir er aðgerð í lýðheilsustefnu. Sú vinna sem þar fór fram er byggð á vinnu, hugmyndum og að sjálfsögðu rannsóknum sérfræðinga um uppeldismál og ég undirstrika að svo er.

Ég þakka enn fremur hv. þingmönnum sem hér hafa kvatt sér hljóðs og rætt þann mikilvæga málaflokk að við hugsum vel um börnin okkar. Ég vil sérstaklega nefna að foreldrar skipta þar svo miklu máli. Það eru gagnreyndar aðferðir sem byggja á rannsóknum um hvaða aðferðir eru bestar. Þetta er ekki eitthvað út í bláinn og ekki einhver ríkisvæðing á uppeldi. Börnin okkar eru í skóla, þar læra þau ýmsa hluti en það er ekki hlutverk kennaranna að ala upp börn nema að ákveðnu leyti. Það er hlutverk foreldranna og það er það sem ég legg áherslu á.

Í þessari umræðu legg ég líka áherslu á að við þurfum að fara að tala meira um hvað við getum gert til að koma í veg fyrir allan þann vanda sem þjóðfélagið býr við, vanda sem ég nefndi í upphafsorðum mínum í dag, en ekki bara hvaða meðferðir eru við vandanum.

Ég þakka fyrir umræðu frá mörgum hv. þingmönnum sem vissulega skiptir máli. Ójöfnuður og fátækt hefur áhrif. Varðandi heimilisofbeldi getum við líka minnst á hlut sem heitir lærð hegðun og eins og ég nefndi er líka hægt að læra þá hegðun af tölvuleikjum og sjónvarpi. (Forseti hringir.) Við eigum ekki að auka aðgengi að eiturlyfjum. Það hefur áhrif á uppeldi barnanna okkar. Við eigum ekki að auka auglýsingar um áfengi.

Ég þakka umræðuna.