150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

bætt uppeldi, leið til forvarna og lýðheilsu.

[11:49]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Eins og oft er með umræðu af þessu tagi fer hún ansi víða en hv. þingmaður leitaðist í fyrirspurn sinni og innleggi við að halda ákveðnum fókus, ef svo má að orði komast, utan um tilteknar aðgerðir sem hafa verið samþykktar á vettvangi stjórnvalda. Ég vona að mér hafi tekist að svara fyrir nákvæmlega þann þátt og þá beinu aðgerð í mínu fyrra svari. Ég held að þó sé mikilvægt að taka saman í lokin, eftir að hafa hlustað á ræður hv. þingmanna um þessi mál, að uppeldisskilyrði barna eru auðvitað verkefni samfélagsins alls. Það er sannarlega gríðarlega mikilvægt að færni foreldra sé höfð í brennidepli í okkar opinberu þjónustu vegna þess að við berum ábyrgð á því líka. En þegar öllu er á botninn hvolft snúast uppeldisskilyrði barnanna okkar að svo miklu leyti um samfélagið í heild, þ.e. um jöfnuð, húsnæði og að þau þurfi ekki að upplifa ofbeldi eða aðrar ógnandi aðstæður í sínu daglega lífi.

Baráttan gegn fátækt er líka baráttan fyrir mannsæmandi uppeldisskilyrðum allra barna. Hv. þingmenn hafa nefnt streitu og álag í daglegu lífi sem ég held að sé gríðarlega mikilvægur þáttur, ekki síst það sem lýtur að tengslamyndun barna og foreldra á fyrstu æviskeiðum. Það skiptir miklu máli til að leggja grunn að góðri geðheilsu og lýðheilsu.

Hv. þm. Þorsteinn Víglundsson talaði um sálfræðinga í heilbrigðiskerfinu eins og það væri algjörlega ný hugmynd. Núna eru um 60 sálfræðingar í opinbera heilbrigðiskerfinu, hjá heilsugæslunni og geðheilsuteymum um allt land. Í þessu efni hafa verið stigin stór skref á síðustu þremur árum (Forseti hringir.) sem hafa breytt í grundvallaratriðum sýninni á geðheilsu samhliða annarri heilsu í heilbrigðisþjónustunni og hafa verið sú bylting sem lengi hefur verið kallað eftir.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir frumkvæðið og segi að lokum: Við þurfum líka að muna að það læra börnin sem fyrir þeim er haft. (Gripið fram í.)