150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

breyting á ýmsum lögum varðandi leyfisveitingar.

332. mál
[11:59]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Það er afskaplega ljúft að koma hingað og gera grein fyrir atkvæði sínu. Það er ekki á hverjum degi og í raun allt of sjaldan sem við greiðum atkvæði með einföldun regluverks. Það hefur svo sem alveg skeð og alltaf þegar það gerist, ég hef fylgst með þessu enda var ég ekkert að byrja í gær, kemur sama ræðan frá þeim sem geta ekki stutt málið. Hún er alltaf einhvern veginn svona: Ég er ofsalega fylgjandi þessu en það er bara ekki rétti tíminn eða þetta er ekki alveg rétt orðalag eða þetta er ekki alveg með einhverjum þeim hætti nákvæmlega núna fyrir hádegi eða eftir hádegi eða hvað það er, þannig að ég get ekki stutt það.

Mér finnst mjög áberandi að sjá hvernig Miðflokkurinn afhjúpar sig í þessu máli. Þetta snýst um eitt, virðulegur forseti, og það er að einfalda regluverk. Menn eiga þá bara að koma til dyranna eins og þeir eru klæddir og segja: Við erum ekki fylgjandi.

Þeir eiga að hætta að þreyta okkur með útúrsnúningaatkvæðagreiðslu. (Gripið fram í: Þú ert með útúrsnúninga.) Gott að ég hreyfði við Miðflokksmönnum. (Forseti hringir.) Mér fannst þeir vera orðnir helst til rólegir en það er að lagast. Þetta er bara mjög einfalt, annaðhvort viljum við einfaldara regluverkið eða ekki. Miðflokkurinn vill ekki einfalda regluverkið. (Gripið fram í: Þvæla.) (Gripið fram í: Þvæla.)