150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

störf Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:30]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra. Ég vil þó taka það fram að ég tel, með tilliti til þess skamma tíma sem við höfðum til að undirbúa setu okkar í ráðinu, að seta okkar í ráðinu sem slík hafi tekist vel og við sem smáríki í þessu ráði höfum getað mætt því nokkuð vel. Ég vil þakka því góða starfsfólki sem var fyrir okkar hönd þarna við störf. Það er mjög mikilvægt að við getum farið frá þessu ráði með það vegarnesti að við gátum sinnt þessu vel. En svo er þetta spurning um pólitíska samstöðu um þau verkefni sem á að taka að sér. Ég nefndi það hér, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, að lögð var töluvert mikil áhersla á Filippseyjar á sama tíma og Filippseyjar eru ekki á topp 10 listanum yfir verstu löndin hvað varðar mannréttindabrot og reyndar ekki heldur á topp 20 listanum. Hæstv. ráðherra fundaði með Sádi-Arabíu. Það var mjög gott og ég er mjög sammála þeirri ályktun. Það væri fróðlegt að vita hvort hæstv. ráðherra hafi í þeim viðræðum minnst á málefni samkynhneigðra við stjórnvöld í Sádi-Arabíu. Það hefði svo sannarlega verið þörf fyrir það.

Þetta snýst svolítið um það að menn fari af stað vitandi það að þau málefni sem á að leggja áherslu á séu afmörkuð. Það er nú einu sinni þannig að þegar menn eru að setja saman ályktun gegn einhverju ákveðnu, gegn ákveðnum ríkjum o.s.frv., þarf það mjög góðan undirbúning og það er mjög mikilvægt að breiður samstarfsvilji sé meðal þjóðanna hvað þau mál varðar. (Forseti hringir.) Þannig var það ekki með málefni Filippseyja, það er bara staðreynd. Það er þó kannski ekki aðalatriðið í þessari ræðu minni heldur að við séum samstiga (Forseti hringir.) um þau málefni sem við ætlum að leggja áherslu á og sinnum þeim með breiða samstöðu að leiðarljósi.

(Forseti (ÞorS): Forseti beinir því til þingmanna að virða tímamörk.)