152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[16:31]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég kem upp til að svara aðeins hv. þm. Jódísi Skúladóttur sem kom hérna áðan og lýsti því yfir að hún hefði fullan vilja til þess að fara þá leið að setja á fót rannsóknarnefnd þegar núverandi rannsóknum ríkisendurskoðanda og Fjármálaeftirlits lýkur. Ég ætla að leyfa henni að njóta vafans og ganga út frá því að hún segi þetta af heilum hug og það komi frá hjartanu að hún vilji gera það. En mér finnst mikilvægt að við áttum okkur á því að hún ræður því ekki ein og sér. Það sem er raunverulega verið að biðja okkur um að gera í stjórnarandstöðunni er einhvern veginn að treysta á það að meiri hlutinn, sem hefur mikla hagsmuni af því að verja sína ríkisstjórn, sína ráðherra, muni taka þá ákvörðun að setja á fót rannsóknarnefnd. Þetta er allt saman; öll rannsóknin, ríkisendurskoðandi, Fjármálaeftirlitið, öll rannsóknin á þessu máli, í höndum meiri hlutans. Það er meiri hlutinn sem er búinn að taka að sér að ákveða hvaða leið við förum í þessari rannsókn og það er meiri hlutinn (Forseti hringir.) sem ætlar að ákveða hvort þörf sé á því að setja á fót rannsóknarnefnd (Forseti hringir.) og það hljóta allir að sjá. Þetta meikar engan sens. Það meikar engan sens (Forseti hringir.) að taka ekkert tillit til stjórnarandstöðunnar í þessu máli og að öll rannsóknin og ákvarðanir um hana (Forseti hringir.) séu á forsendum meiri hlutans.