152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[18:14]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það rétt til getið hjá hv. þingmanni að ég er ekki hvað síst að vísa í starfsemi Sameinuðu þjóðanna. Mér finnst reyndar óviðeigandi að tala um að flóttamenn séu sendir eins og bögglar eitthvað. Það er víða tekið mjög vel á móti flóttamönnum á vegum Sameinuðu þjóðanna og mál þeirra þá sett í ferli og tekið á móti þeim í löndum eins og á Íslandi. Við höfum tekið á móti talsverðum fjölda flóttamanna í gegnum Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna og viljum gera það vel, höfum lagt áherslu á það.

Hv. þingmaður kemur einmitt inn á mjög áhugavert stórt atriði, siðferðilegt atriði, sem ég hafði hugsað mér að ræða nánar í ræðu hér síðar. Það er sú staðreynd að flóttamenn borga oft á tíðum til að mynda 10.000 evrur fyrir að fara í lífshættulega för gegnum Afríku, á báti á Miðjarðarhafi o.s.frv. Þá spyrja menn: En af hverju? Ef viðkomandi getur borgað 10.000 kr., af hverju borgar hann ekki bara fyrir flugmiða? Það er vegna þess að Evrópulöndin taka ekki á móti flóttamönnum sem koma beint með flugi. Og af hverju er það? Evrópulöndin, Þýskaland og Svíþjóð þar á meðal, vita að þau myndu ekki ráða við það ef þau opnuðu fyrir vegabréfsáritun eða ef ekki væri þörf fyrir vegabréfsáritun fyrir hvern þann sem vildi koma með flugi til þessara landa. Þess vegna er þetta fólk sett í lífshættu, látið fara svaðilför og svo hugsanlega fagnað með blómum á aðalbrautarstöðinni í München þegar þangað er komið.