152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[18:21]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég er undrandi á því að í þingflokki Framsóknarmanna sé enn stuðst við talpunkta sem kom á daginn í fyrri umræðu um þetta mál að reyndust algerlega innihaldslausir, og það eftir að framsögumaður málsins, hv. þm. Jódís Skúladóttir, fór ágætlega yfir staðreyndir málsins. En einhverra hluta vegna vilja menn ekki kannast við um hvað þetta raunverulega snýst. Hér kom í fyrri umræðu hæstv. félagsmálaráðherra og hélt því fram að þeir sem væru á móti þessu vildu ekki að innflytjendur fengju að læra íslensku. Það var bara ekkert um það í þessu máli, það hafði ekki nokkur einustu áhrif á það. Þetta mál snýst um að leggja grunn að því að fólk eigi rétt á sömu þjónustu, sömu greiðslum þar með talið, óháð því með hvaða hætti það kemur til landsins.

Svo eru þarna þrjú störf til að framfylgja þessu. Hv. þingmaður velti því fyrir sér hvort þau geti ekki komið að gagni við að taka á móti hinum mikla fjölda flóttamanna frá Úkraínu. Eflaust geta þessir þrír starfsmenn gert eitthvert gagn í því en við þurfum miklu meira en þrjá til að hjálpa þeim mikla straumi sem hefur komið frá Úkraínu og mun koma áfram. Það dugar ekki að setja gamalt mál frá því í hittiðfyrra í ný klæði og nota þannig neyðina í Úkraínu til að réttlæta málið. Það ástand og sá mikli fjöldi sem berst til Evrópu, og þar með talið til Íslands, kallar á sérstök viðbrögð af hálfu stjórnvalda, sérstök viðbrögð og veruleg fjárframlög, en ekki á það að reyna að nota það til þess að réttlæta gamalt mál sem aldrei virkaði.