152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[20:12]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Það virðist sem þetta mat hafi ekki enn farið fram. Aftur er lögð áhersla á það af hálfu Persónuverndar að slíkt mat fari fram. Það á vissulega að gera það á fyrri stigum, við gerð frumvarpsins, eins og alltaf er við gerð laga þannig að ég ímynda mér að þetta sé algeng athugasemd af hálfu Persónuverndar. Persónuvernd gerir hins vegar ekki athugasemdir við frumvarpið eins og það er með þessum fyrirvara. Ég treysti því að þessu verði fylgt eftir og við fylgjumst sannarlega grannt með þessum málum eins og hv. þingmaður gat sér glögglega til um hér áðan, þetta er náttúrlega okkar hjartans mál.

Eftir sem áður hef ég minni áhyggjur af þessum lögum eins og þau eru en af framkvæmdinni. Jafnvel þó að lögin væru í samræmi við alla okkar ströngu persónulöggjöf, sem virðist vera að mati Persónuverndar, er samt alltaf þessi hætta á að stjórnvöld vanmeti mikilvægi þess að gæta trúnaðar um allt sem varðar einstaklinga persónulega. Ég held að það sé mögulega hluti af almennri vitundarvakningu sem er að eiga sér stað og þarf að eiga sér stað.

Ég ítreka að þetta er sannarlega eitthvað sem fylgst er með. Það eru aðilar sem munu fylgjast grannt með því hvernig þessi þjónusta verður veitt í framkvæmd, hvernig réttindavernd fólks í þessari stöðu verður fram haldið og þess háttar. Ég hef sannarlega áhyggjur af þessu. (Forseti hringir.) En þær áhyggjur mínar gáfu ekki tilefni til að gera neinar tillögur um formlegar breytingar á þessu frumvarpi. Það er kannski fyrst og fremst það sem ég var að segja í ræðu minni hér áðan.