152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[20:36]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Fátt í henni kom svo sem á óvart. Hv. þingmaður nefndi það tiltölulega snemma í sinni ræðu að hann hefði áhyggjur af því að þessi aukna þjónusta eða jafnaðarþjónusta yki á tilhæfulausar umsóknir hér á landi, hefði svokölluð aðdráttaráhrif. Ég vil byrja á að setja spurningarmerki við tölfræðina sem hv. þingmaður nefnir þar sem þegar um mjög fáa einstaklinga er að ræða, eins og í tilviki Íslands, þá þarf ekki marga til að velta tölfræðinni dálítið. Ef það eru tveir þá þarf ekki nema tvo til að tvöfalda og fjóra til að þrefalda fjöldann. Ég vil hins vegar taka undir með þingmanninum varðandi það að alla vega er það varla veðrið. Varla er það veðrið sem fólk er að sækjast eftir þegar það kemur hingað. Svo mikið er víst.

Skýringar á því hvers vegna fólk leitar til Íslands en ekki eitthvert annað, ég verð að byrja á að vekja athygli á því að þær eru ekkert annað en ágiskanir. Það hefur ekki verið gerð nein rannsókn á þessu. Það hefur ekki verið gerð nein úttekt á því hvers vegna fólk leitar til Íslands. Ágiskanir Útlendingastofnunar eru að mínu mati algerlega út í bláinn og byggjast á þeirra viðhorfum til flóttafólks almennt. Ég hef hins vegar áhuga á þessari spurningu líkt og hv. þingmaður og hef þess vegna í mínum störfum með flóttafólki til 13 ára gjarnan spurt fólk: Hvers vegna valdirðu Ísland? Í þeim tilvikum sem minnst er á þjónustu, sem eru mjög fá, þá er það oftast í tilvikum þar sem fólk er að leita eftir heilbrigðisþjónustu sem það á ekki kost á neins staðar annars staðar. Gjarnan er þar um börn fólks að ræða. Enda, hver myndi ekki fara heiminn á enda til að leita að nauðsynlegri lífsbjargandi þjónustu fyrir barnið sitt? Þetta eru fá tilvik. Langalgengasta skýringin er þessi: Ég heyrði að á Íslandi væru mannréttindi virt.

Þannig að ég er kannski ekki beinlínis með spurningu til þingmannsins heldur vil ég benda honum á (Forseti hringir.) að hæstv. ríkisstjórn er búin að spotta það að það eru mannréttindi sem draga fólk hingað til lands. Því get ég mér þess til að hv. þingmaður (Forseti hringir.) vilji gjarnan stökkva á vagninn með Vinstri grænum í kapphlaupinu á botninn (Forseti hringir.) með því að ráðast í víðtæka skerðingu á mannréttindum flóttafólks til að fæla fólk frá. (Forseti hringir.) Því að eins og hv. þm. Jódís Skúladóttir sagði hér í sinni ræðu áðan: (Forseti hringir.) „Við getum ekki hjálpað öllum.“ Með öðrum orðum: Mannréttindi eru ekki fyrir öll.