152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[20:43]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka andsvarið. Ég held að hv. þingmaður sé aðeins að misskilja tímalínuna, í hvaða röð hlutirnir gerast eins og ég er að leggja málið upp. Það er ekki verið að gera tillögu um að skerða þjónustu með því að leggjast gegn þessari breytingu, það er verið að leggja til að ekki verði aukið í fyrir ákveðna hópa sem hingað koma. Það er því engin skerðing sem er lögð til heldur er beinlínis verið að leggja til að farið verði að lögum, núgildandi lögum í þessum efnum. Bara svo að það sé á hreinu gengur sú nálgun sem ég mæli hér fyrir út á að bæta ekki í gagnvart þeim hópum sem koma hingað á öðrum forsendum en undir hatti kvótaflóttamannakerfisins, sem sagt að ekki verði allir aðrir sem hingað koma á öðrum forsendum settir upp í þann þjónustuflokk ef svo má segja. Í því felst engin skerðing á þjónustu við neinn. Tillagan, að farið verði að lögum eins og þau eru, felur í sér, að ég tel, minna álag á kerfið eins og það er sett upp núna. Þannig náum við betri árangri fyrir þá sem við veitum þjónustu, með því að veita fjármuni til þeirra, til að styðja við aðlögun að íslensku þjóðfélagi og gera í rauninni, ef ég má orða það svo kaldranalega, kerfinu kleift að ráða við það verkefni sem því er falið.