152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[20:49]
Horfa

Frsm. (Jódís Skúladóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka svarið. Ég verð nú að fá að vera ósammála — ja, hvað á ég að segja, systurflokki mínum að mati Pírata hér á þinginu. Ég verð að vera ósammála þessari hugmyndafræði um að við séum hér að auglýsa einhverja útsöluvöru sem muni trekkja gríðarlega að. Ég næ ekki alveg utan um þá hugsun og ég hef ekki séð neitt sem styður við þessa hugmyndafræði. Við erum að samræma þjónustu sem verið er að veita. Við erum bara að samræma hana fyrir fólk. Það skiptir ekki máli hvort þú kemur á þennan hátt eða hinn, allir eiga rétt á sömu þjónustu. Annað sem mér finnst líka pínu gagnrýnivert í þessari umræðu er að þegar fjallað er um það að hingað muni bara koma holskefla af einhverju fólki sem vilji þiggja hér einhverja þjónustu þá er ekki hugsað um að þessi þjónusta sem við erum að veita er að tryggja það á sem bestan hátt að þessir einstaklingar komist í nám, til starfa, læri tungumálið, aðlagist samfélaginu og verði hér góðir samfélagsþegnar sem skapa verðmæti í samfélaginu, á vinnumarkaði, komi með tekjur inn í okkar samfélag, skapi hér tekjur. Það er dálítið skakkt að horfa bara á það að hver einn og einasti einstaklingur sem fer í gegnum þetta ferli sé hingað kominn sem einhvers konar baggi á samfélaginu og verði það um ókomna tíð. Það er bara ekki rétt. Stór hluti fer aftur til síns heima þegar aðstæður leyfa. Aðrir og langflestir verða hér gagnsamir þjóðfélagsþegnar sem skapa fjölbreytileika (Forseti hringir.) og verðmæti í samfélaginu.