152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[21:21]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Ég held að forfeður okkar, víkingarnir, hafi nú verið einna bestir í því að takmarka fólksfjölda á Íslandi með því einfalda ráði að kalla það Ísland. Hingað er ekkert að sækjast fólk í stórum hópum vegna þess að fólki hreinlega finnst þetta dálítið skrýtið land þar sem er myrkur allan veturinn og ískalt. Jú, fjöldinn hefur aukist en fjöldi fólks á flótta hefur aukist stórlega, t.d. vegna átakanna í Sýrlandi, átakanna í Afganistan og átakanna í Írak. Það er reyndar þannig að undanfarin ár hefur fjöldinn haldist mjög svipaður, hækkað um 10–20 manns á ári, að hluta til kannski vegna Covid. Að sjálfsögðu koma hingað fleiri þegar tækifærin eru orðin fleiri og það eru miklu fleiri flugferðir hingað heldur en voru, ódýrari ferðir. Það er t.d. hægt að fljúga héðan frá Póllandi fyrir nokkra þúsundkalla. Þetta hefur allt áhrif. En hvað gerðist ef við tækjum á móti þeim 870 manns sem komu og báðu um hæli í fyrra? Heimurinn …(Gripið fram í.)Hvað segirðu? (SDG: Þá kæmu margfalt fleiri næst.) Ekki endilega. Ég held nefnilega að við gætum alveg nýtt þá krafta í að vinna þá vinnu sem þarf að vinna hér. Hér er skortur á fólki. (Forseti hringir.) Af hverju tökum við síður við fólki sem kemur frá Miðausturlöndum eða Afríku en erum alltaf tilbúin að taka við fólki sem kemur frá Evrópu?