152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[23:34]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég hef nú lokið yfirferð minni um greinargerð frumvarpsins sem dregur fram það sem auðvitað hefði átt að blasa við allan tímann, að þau markmið sem ætlunin er að ná fram samkvæmt texta greinargerðarinnar og frumvarpsins raunar er öllum hægt að ná án þess að útvíkka þann hóp sem nýtur þeirra réttinda sem kvótaflóttamenn njóta í dag.

Það var í umræðum 1. febrúar síðastliðinn, þegar hæstv. ráðherra mælti fyrir málinu, sem hæstv. ráðherra svaraði í andsvari við framsöguræðu sína eftirfarandi spurningu, með leyfi forseta: „Að þessu frumvarpi samþykktu, eins og það liggur fyrir, eru þá réttindi einstaklinga með vernd í öllu þau sömu og réttindi einstaklinga sem koma hingað undir kvótaflóttamannakerfinu?“

Þetta var spurningin og hæstv. ráðherra svaraði, með leyfi forseta: „Til að svara fyrri spurningu hv. þingmanns þá er svarið: Já …“

Ég verð að viðurkenna að ég næ ekki að lesa það út úr frumvarpstextanum með hvaða hætti þau réttindi sem kvótaflóttamenn njóta eru leidd út af texta frumvarpsins. Ég velti fyrir mér: Er einhver möguleiki á því, hæstv. forseti, að hæstv. ráðherra sé í húsi og gæti mögulega komið til samtals við þá sem hér eru að ræða málið? Það er ekki alveg augljóst miðað við texta frumvarpsins og greinargerðarinnar sem henni fylgir hvernig þetta í raun og veru atvikast því að það sem er verið að lýsa í greinargerð frumvarpsins snýr ekki að þessum þáttum. Ég velti því fyrir mér: Er eitthvert annað frumvarp hér í kerfinu sem er væntanlegt sem rammar þetta inn með skýrari hætti? Því að hér er vísað til þess að þetta tiltekna frumvarp sé samið í samráði við starfshóp um móttökuáætlanir sveitarfélaga og að starfshópnum hafi verið falið að fylgja eftir tillögum nefndar um samræmda móttöku flóttafólks sem skipuð var af félagsmálaráðherra 24. mars 2017. Af orðalagi þessarar málsgreinar er ekki hægt að skilja að það sé búið að gera þær breytingar sem ráðherra staðfestir að sín skoðun sé að séu að verða með þessu frumvarpi. Það er ekki hægt að skilja sem svo að þær hafi verið gerðar með öðru frumvarpi á fyrri stigum sem hafa verið samþykkt. Það hlýtur þá að vera í þessu máli sem þessi grundvallarbreyting á að eiga sér stað og það getur ekki gerst með því einu að verið sé að veita Fjölmenningarsetri víðtækari heimildir til vinnslu persónuupplýsinga. Þessi ákvörðun um samræmda móttöku, það að fella alla undir sama hatt, hlýtur að þurfa að takast með einhverjum skýrari hætti heldur en hér kemur fram. Það má svo sem segja að í 2. gr. séu þessir hópar taldir upp, ég verð nú bara að lesa mig staf fyrir staf í gegnum þetta. En ef breytingin sem um ræðir er að eiga sér stað með þessu tiltekna ákvæði þá þykir mér allt annað sem fram kemur í greinargerð málsins skauta mjög léttilega fram hjá þeirri grundvallarbreytingu.

Ég bið hæstv. forseta að setja mig aftur í ræðu sem mun að líkindum fjalla um 2. gr. þessa frumvarps.