152. löggjafarþing — 70. fundur,  28. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[00:29]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Mig langar að koma inn á það sem hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra sagði í ræðu þegar hann mælti fyrir málinu þann 1. febrúar síðastliðinn. Hann segir, með leyfi forseta:

„Allir einstaklingar með skráð lögheimili hér á landi eiga rétt á þjónustu samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og þetta frumvarp breytir því ekki.“

En það er ekki spurningin. Hæstv. ráðherra virðist reyna að fara eins og köttur í kringum heitan graut í málinu þegar hann er spurður hinn 1. febrúar síðastliðinn, í andsvari við eigin framsöguræðu, hvort réttindi einstaklinga með vernd væru í öllu þau sömu og réttindi einstaklinga sem koma hingað undir kvótaflóttamannakerfinu að þessu frumvarpi samþykktu eins og það lægi fyrir. Þá svarar hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

„Já, þarna er verið að samræma þau réttindi sem annars vegar kvótaflóttafólk nýtur og hins vegar þeir sem fá vernd með öðrum hætti.“

Sú spurning snýr ekki að réttindum þeirra samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga heldur snýr spurningin að þeim réttindum sem kvótaflóttamenn njóta, eins og ég taldi upp í tíu stafliðum áðan þar sem fjallað er um kvótaflóttafólk, sem er skilgreint með þeim hætti og kemur undir því regluverki:

„Flóttafólk á rétt á sérstakri aðstoð að lágmarki í eitt ár frá komu þess til landsins. Aðstoð sú sem flóttafólkið á rétt á, sbr. þó önnur ákvæði þessa kafla, er:

a. Fjárhagsaðstoð. b. Félagsleg ráðgjöf. c. Húsnæði, ásamt nauðsynlegu innbúi og síma. d. Menntun, einkum íslenskukennsla, móðurmálskennsla og samfélagsfræðsla. e. Leikskólakennsla. f. Tómstundastarf. g. Heilbrigðisþjónusta og tannlækningar. h. Þjónusta túlka. i. Aðstoð við atvinnuleit. j. Önnur nauðsynleg aðstoð.“

Þarna liggur þessi spurning sem er algerlega nauðsynlegt að verði leitt fram svar við: Verður þessum fimm hópum sem eru taldir upp í 2. gr. frumvarpsins veitt þessi réttindi til samræmis við kvótaflóttamennina eins og þeir hafa núna eða ekki? Ég spyr eins og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson á opnum fundi fjárlaganefndar í morgun, vildi spyrja já og nei spurninga. Hérna erum við nefnilega með eina mjög einfalda já eða nei spurningu. Eins og svar hæstv. ráðherra lá í andsvari við framsöguræðu hans þegar mælt var fyrir frumvarpinu í byrjun febrúar síðastliðnum var það að allir hópar nytu sömu réttinda og kvótaflóttamenn. Og ég var að telja þau réttindi upp hér rétt í þessu. Þetta hefur ekkert með beinum hætti að gera með þau réttindi sem lög um félagsaðstoð sveitarfélaga, ef ég man rétt nafn þeirra laga, fjalla um. Það er óumdeilt að þau réttindi eru til staðar fyrir þá sem búsettir eru hér á landi. Það er bara ekki spurningin sem er spurð hérna. Hvorki núverandi hæstv. ráðherra málaflokksins né sá sem sinnti á undan honum þessum málaflokki voru í neinum vafa, eins og ég skildi það og fleiri, sem skýrir andsvör og spurningar til að mynda hv. þm. Birgis Þórarinssonar við framsögu hæstv. ráðherra í febrúar. Það voru engar vöflur á hvorugum ráðherranna um að þessi viðbótarréttindi væru til staðar fyrir þessa fjóra hópa til viðbótar við kvótaflóttamenn sem eru taldar upp í 2. gr. frumvarpsins. Ég hreinlega átta mig ekki á með hvaða hætti á að reyna að fikra þessu máli áfram á meðan (Forseti hringir.) svar ráðherrans harmónerar ekki við það sem kemur fram í 2. gr. frumvarpsins. En við höldum áfram að reyna. (Forseti hringir.) Ég óska eftir því, hæstv. forseti, að fá að fara aftur á mælendaskrá.