152. löggjafarþing — 70. fundur,  28. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[01:07]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég var að rekja mannfjöldaþróun í nokkrum ríkjum og setja í samhengi við atriði sem ég nefndi áður, annars vegar mjög aukna útbreiðslu samskiptatækni og svo þá staðreynd að eftir því sem lífsgæði aukast, þeim mun meiri eru líkurnar á því að fólk yfirgefi landið og leiti annað. Ástæðan fyrir því að ég rek þessa hluti er að ég held að það sé nauðsynlegt að setja viðfangsefnið í samhengi til að sýna fram á við hvað er að eiga. Ég nefndi það að í Nígeríu yrðu 450 milljónir manna árið 2050, landið þá þegar fyrir nokkrum árum orðið fjölmennara en Bandaríkin. Í Úganda yrðu 100 milljónir manna eftir 30 ár og meira að segja Níger, fátækasta ríki heims, yrði við lok aldarinnar orðið fjölmennara en Rússland. Ég þarf að leiðrétta mig frá því áðan þegar ég nefndi það að Tsjad væri stærsta miðstöð fólksflutninga og þessara gengja sem smygla fólki. Það er í Níger, í þessu fátækasta ríki heims, en straumurinn fer einnig um Tsjad sem er nú nánast eins fátækt, því miður. En þessi miðstöð er í eyðimerkurborginni Agadez, helstu miðstöð smyglara í Afríku. En það sama gildir um Níger og Tsjad að íbúar landsins eru ekki að yfirgefa það, eru ekki að flýja, þeir eru einfaldlega of fátækir.

Evrópusambandið reyndi að bregðast við þessu og það verður nú að segjast, herra forseti, að Evrópusambandið, þrátt fyrir öll umbúðastjórnmálin, reynir nú ólíkt íslensku ríkisstjórninni að búa til einhverja hvata sem draga úr straumnum, þ.e. tilhæfulausum hælisumsóknum. En Evrópusambandið bauð styrki í skiptum fyrir að fólksflutningum yrði hætt í Níger. Og hver var afleiðingin? Styrkirnir voru greiddir, fólksflutningarnir héldu bara áfram, en leyndin jókst og þar með hætturnar. Ég sá í frétt á sjónvarpsstöðinni CNN einmitt um þessa miðstöð í Agadez í Níger þar sem þeir fóru yfir það að þar í grennd væru þjálfunarbúðir hryðjuverkamanna. En reyndar líka ekki langt frá borginni ný herstöð bandaríska flughersins, herstöð fyrir sprengjudróna. Og hvers vegna komu Bandaríkin upp herstöð á þessum stað? Jú, vegna þess að þrátt fyrir allt er ástandið í Níger stöðugra en í flestum nágrannaríkjum þar sem íslamistar hafa látið mikið til sín taka svoleiðis að Bandaríkjamennirnir geta flogið frá þessari herstöð með drónana og varpað sprengjum í allar áttir. Frakkar eru reyndar með herstöð þarna líka. Hvað kemur þetta málinu við? Jú, Evrópulönd, Ameríkulönd og Asíulönd seilast þarna til áhrifa og Kínverjar þar reyndar fremstir í flokki. Vöxturinn í þessum löndum verður gífurlegur á næstu árum, ekki bara fólksfjölgunin heldur líka hagvöxtur, m.a. vegna auðlindanýtingar. Ef hæstv. forseti fylgdist með fyrri ræðum þá veit hann hvað það hefur í för með sér. En þó að ásóknin í að komast til borga Evrópu, London, München, Stokkhólms o.s.frv., verði áfram mikil þá mun það ekki breyta því að þessar borgir verða áður en mjög langt um líður smáborgir í samanburði við vaxandi borgir í Afríku og Asíu.

En áður en ég kem að því verð ég líklega gera hlé. Klukkan segir það og ég bið því hæstv. forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.