Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

atkvæðagreiðsla um birtingu greinargerðar um Lindarhvol.

[14:38]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vildi bara fá að koma hingað upp þar sem ég heyrði að ég held alla vega í tvígang, og sem ég held að sé mögulega misskilningur, að núverandi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd geti ekki haldið áfram með málið eða tekið upp þá skýrslu sem var skilað 2020 af hálfu Ríkisendurskoðunar. Það er hins vegar rétt að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur ekki tekið þá ákvörðun enn sem komið er að taka upp þá skýrslu og eins og ég skil málið væri þá þeirri nefnd ekkert að vanbúnaði að kynna sér þau gögn sem nefndin þyrfti til að klára þá vinnu með réttum og vönduðum hætti. En ég held að það skipti máli í þessari umræðu sem fjallar um mikla lagatúlkun að það er ekki það sama að hafa ekki tekið ákvörðun um það að skoða þessa endanlegu skýrslu Ríkisendurskoðunar og allt sem því fylgir og að geta það ekki áður en búið er að létta þessum trúnaði, eins og það er orðað hér. (Forseti hringir.) Mér finnst skipta máli að koma hér upp og nefna það.