Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

Störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Guðrún Hafsteinsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Í síðustu viku var sú sem hér stendur skipuð formaður starfshóps af umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og falið að skoða og leggja fram tillögur að því hvaða leiðir séu færar til að hraða orkuskiptum í flugi með notkun endurnýjanlegs eldsneytis fyrir millilandaflug. Starfshópurinn á sömuleiðis að skoða fýsileika framleiðslu á endurnýjanlegu flugeldsneyti hér á landi.

Til að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar varðandi kolefnishlutleysi árið 2040 þarf að móta skýra stefnu og aðgerðaáætlun. Í þessari vinnu verður horft til sjálfbærni sem leiðir af sér að við Íslendingar erum í kjörstöðu til að geta framleitt okkar eigið flugeldsneyti, en til þess þurfum við að fara í aukna orkuöflun enda er ekki næg orka til í landinu í dag til að ná fram fullum orkuskiptum í samgöngum. Á heimsvísu ber flugstarfsemi ábyrgð á um 2,8% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda. Alþjóðasamtök flugfélaga, IATA, hafa sameinast um að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2050. 52% af öllu jarðefnaeldsneyti sem flutt er til landsins fer á flugvélar. Til að leysa þá orkunotkun með raforku munum við þurfa 8,2 TWst. samkvæmt vefsíðunni orkuskipti.is.

Það eru ýmis tækifæri ónýtt hér á landi. Sérstaða okkar felst í möguleikum á því að nýta orkuna okkar til framleiðslu á grænu eldsneyti og ef það tekst mun það skapa spennandi tækifæri fyrir Ísland. Í þessari vegferð er nauðsynlegt að við vinnum saman; einkafyrirtæki, fyrirtæki í ríkiseigu, stjórnvöld og hagsmunasamtök. Atvinnulífið leikur stórt hlutverk í loftslagsmálum þegar kemur að tækniþróun, nýsköpun og umhverfisvænum lausnum. Það eru miklar áskoranir fram undan í loftslagsmálum. Þær áskoranir eru krefjandi en ekki síður spennandi. Ég geng vongóð til þessa verkefnis og þrátt fyrir að ég sé ekki miðaldra hvítur karl þá vænti ég góðrar niðurstöðu þessarar vinnu.