Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

Störf þingsins.

[15:25]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Sprengjuástandið sem ríkir á íslenskum vinnumarkaði skýrist hvorki af hárgreiðslu Halldórs Benjamíns né af skapi Sólveigar Önnu þó að kaffistofur landsmanna sálgreini nú þessar tvær aðalpersónur kjaraviðræðnanna sem yfir standa. Spennustigið stafar af því að fólk hér á landi býr ekki við jöfn tækifæri. Vinnumarkaðsmódelið er eitt en skekkjurnar í hagkerfinu eru annað. Almenningur lifir í krónuhagkerfi en um 300 íslensk stórfyrirtæki nota ekki krónuna. Það gerir stóreignafólk ekki heldur, sem getur geymt fjármagn í erlendum gjaldmiðlum. Þegar vextir eru hækkaðir eru það almenningur og litlu fyrirtækin sem taka á sig kostnaðinn. Stóru fyrirtækin anda léttar. Vaxtahækkanir á Íslandi eru margfaldar miðað við það sem við sjáum í nágrannaríkjum og í Evrópu þrátt fyrir að verðbólga hafi líka verið vandamál þar. Á Íslandi er erfiðara að eignast húsnæði en í nágrannaríkjunum. Fólk á leigumarkaði býr við fáránlega erfiðar aðstæður. Matur er langtum dýrari hér en í nágrannaríkjunum og það eru húsnæðislán og tryggingar líka. Raunveruleg samkeppni milli banka ríkir ekki sem sést best á því að þeir hafa að jafnaði tekið sér korters umhugsunarfrest í að hækka vexti eftir vaxtaákvarðanir Seðlabankans. Hvaða réttlæti er í því að almenningur og minni fyrirtæki taki á sig kostnað vegna vaxtahækkana á meðan stórfyrirtæki eru í skjóli evru og dollara? Það er óréttlætið sem skapar spennu í samfélaginu og friður til lengri tíma þarf að snúast um það verkefni að verja lífskjör og búa til fyrirsjáanleika. Getur verið friður um að það að eignast heimili sé áhættufjárfesting eða fákeppni sé tekin fram yfir samkeppni? Ég vona sannarlega að samkomulag náist sem fyrst en það verður kjaradeila eftir þessa og verkefnið verður að vera að skapa frið til lengri tíma. (Forseti hringir.) Þá þarf að búa fólkinu í landinu jöfn tækifæri með almennum reglum, heilbrigðri samkeppni og stöðugum gjaldmiðli.