135. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[15:20]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar kom fram að það væri verið að keyra þetta mál í gegn á miklum hraða, á últrahraða. Hv. þingmaður fjallaði líka aðeins um störfin í allsherjarnefnd. Ég er í allsherjarnefnd. Það kom fram hjá hv. þingmanni að allir í nefndinni hafi gert athugasemdir við frumvarpið. Vegna þessara orða vil ég sérstaklega taka fram að að mínu mati er ekki hægt að færa sterk rök fyrir því að verið sé að færa þetta mál hér í gegnum þingið á miklum hraða. Við erum búin að ræða um þessi mál beint og óbeint í talsvert langan tíma.

Núna í desember afgreiddum við breytingar á þingsköpum. Allir flokkar voru sammála um að þar væri stigið mjög mikilvægt skref fram á við nema reyndar var þingflokkur Vinstri grænna ekki með í því samkomulagi. Á þeim tíma var rætt um að styrkja stöðu þingmanna að frekara leyti með því að taka inn aðstoðarmenn, að þingmenn gætu ráðið sér aðstoðarmenn og það var talað um landsbyggðarþingmennina í því sambandi og líka styrkingu á nefndastarfi og annað sem kom fram í ræðu hv. þingmanns hérna áðan. Þetta er því ekki mál sem er að pompa upp í hendurnar á okkur núna bara á síðustu dögum. Það hafa farið á milli manna hér reglur sem þeir hafa getað skoðað varðandi hvernig á að útfæra þetta.

Ég get því ekki tekið undir þetta. Þó að menn hafi að sjálfsögðu rætt þetta mál í nefndinni á nokkrum fundum og skipst á skoðunum, eins og eðlilegt nefndarstarf er, þá get ég alls ekki fallist á þann tón sem hér er gefinn, að það sé verið að setja þetta mál hér í gegn á einhverjum miklum hraða og að allir í allsherjarnefndinni séu meira eða minna með alvarlegar athugasemdir við málið. (Forseti hringir.) Það er bara ekki rétt.