136. löggjafarþing — 71. fundur,  22. jan. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

258. mál
[15:23]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég kannast ekki við neitt sérstakt ákall til Samfylkingarinnar þó að það sé borið mjög upp á mig núna af því að ég vísaði til þess í einu blaðaviðtali að ég hefði ekki skipt um skoðun í þeim efnum frá því að við í aðdraganda síðustu þingkosninga reyndum að mynda bandalag gegn þáverandi ríkisstjórn, enda erum við að takast hér á við sameiginlega stjórnarstefnu væntanlega Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Þetta er ekki bara mál Alþýðuflokksins eða Samfylkingarinnar. (ArnbS: Þú varst að vísa til landbúnaðarstefnu þeirra.) Já, ég var að vísa til landbúnaðarstefnu krata í gegnum tíðina sem hefur almennt ekki verið talin sérstaklega hliðholl landbúnaðinum og hélt að menn skildu það. En hér er stjórnarfrumvarp sem Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin standa að og Sjálfstæðisflokkurinn hleypur ekkert undan því. Hann verður að bera fulla pólitíska ábyrgð á því ef hann ætlar að láta sig hafa það að setja þetta inn og gera þetta að lögum. Mér er vel kunnugt um að það ríkir lítil hrifning víða í röðum sjálfstæðismanna eða fyrrverandi sjálfstæðismanna t.d. á landsbyggðinni um framgöngu flokks þeirra í þessum efnum. Þar ríkir lítil hrifning. Þeir þurfa t.d. ekki nema norður í Húnavatnssýslu, leiðtogar Sjálfstæðisflokksins, til að átta sig á því.

Það sem hér var spurt um varðandi möguleika á að svartlista lönd og svæði, þá var svarið hjá hv. formanni landbúnaðar- og sjávarútvegsnefndar mjög fátæklegt, því að ég er að spyrja um innleiðingaraðferðina, að það sé bundið í lög að við höfum slíkar heimildir sem í raun og veru þýddu að við gætum í aðalatriðum lokað á tiltekinn innflutning vegna þess að sjúkdóma- og smitástand og aðferðafræði er að stærstu leyti til með allt öðrum hætti í þeim löndum sem líklegt er að vörur kæmu frá, að verulegu leyti hvað varðar salmonellu og nánast algerlega hvað varðar kampýlóbakter. Það ætti að geta dugað okkur að hafa allt aðrar reglur, það væri nauðsynlegt að sækja um leyfi og menn yrðu að sanna fyrir fram að varan væri í lagi ef hún kæmi hingað yfir höfuð.