138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[17:09]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þuríði Backman fyrir hennar ræðu og hef nokkrar vangaveltur sem ég tel rétt að koma á framfæri. Ef ég man rétt er ár í dag frá því að ný ríkisstjórn tók við völdum í landinu, m.a. undir þeim formerkjum að hér skyldi breyta ýmsu. Það er því hálfhjákátlegt að heyra það frá hv. þingmanni að viljinn sé til staðar til að breyta verklagi. En hvers vegna sér þess þá ekki í stað í framkvæmd? Hvers vegna er hv. þm. Þuríður Backman ekki búin að taka völdin í sínar hendur og laga þetta verklag, breyta því hvernig komið er fram við minni hlutann í umhverfisnefnd ef það er það sem hv. þingmaður ætlaði sér að gera með því að komast til valda í þessu landi með sinn ágæta flokk? Hvers vegna er það? Hafa menn ekki áttað sig á því að þegar þeir eru komnir til valda þá verða þeir að fylgja eftir sínum eigin orðum? Ég átta mig ekki alveg á þessari stöðu. Hvers vegna er ekki einfaldlega farið í það að hafa þetta samráð, hvers vegna er einfaldlega ekki farið í það að leyfa hagsmunaaðilum að koma fyrir þessa nefnd og ræða þetta mál?

Talandi um það að leita samráðs fyrr þá var t.d. varðandi Þjórsárver leitað samráðs við heimamenn með sérstakri nefnd sem byrjaði að starfa árið 2006 sem skilaði ákveðinni niðurstöðu. Hins vegar er ekki farið eftir þeirri niðurstöðu. Getur hv. þingmaður upplýst mig um það hvers vegna það er gert og á hvaða rökum það er reist að þannig er farið með vilja heimamanna sem náðst hafði ákveðin sátt um í þessari ágætu nefnd? Hvers vegna er það ekki gert? Eru þar einhver undirliggjandi sjónarmið varðandi Þjórsárverin sérstaklega? Það vekur athygli mína að í texta þingsályktunartillögunnar kemur fram varðandi Þjórsárverin, með leyfi forseta: „Jafnframt eru friðlýsingarskilmálarnir styrktir og bann lagt við röskun innan svæðisins.“ Hvers vegna er þetta sérstaklega tekið fram varðandi Þjórsárverin?