139. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2011.

afnám verðtryggingar.

[16:15]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem hefur verið góð og gagnleg. Fyrst vil ég leggja áherslu á að það er stefna ríkisstjórnarinnar að draga úr vægi verðtryggingar. Ég lagði fram í fyrra frumvarp sem ekki var afgreitt frá þinginu, meðan ég gegndi starfi félagsmálaráðherra, sem fól í sér heimild til handa Íbúðalánasjóði að gefa út óverðtryggða lánaflokka. Forsenda þess að hægt sé að vinda ofan af verðtryggingunni er að önnur fjármögnun sé í boði. Þá var hugsunin sú að hægt væri að reyna að bjóða upp á fasta vexti til afmarkaðs stutts tíma og vinna þannig gegn sveiflunum sem eru hið verulega vandamál.

Margir hafa talað hér um vandann sem fylgir verðtryggingunni og að lánin hafi hækkað svo mikið út af henni. Það er mikilvægt að við blekkjum okkur ekki heldur tölum af sanngirni um hlutina. Lán hefðu líka hækkað við 18% verðbólgu þótt það hefði ekki verið verðtrygging. Þá hefðu vextir væntanlega hækkað upp í 22–25% og fólk þurft að standa skil á þeim á þeim tímapunkti og vanskil orðið þannig að þúsundir ef ekki tugþúsundir Íslendinga hefðu misst húsnæði sitt.

Það er ekki þannig að ef verðtryggingin hverfi gufi öll okkar vandamál upp. Verðtryggingin er ekki vandamál í sjálfu sér, það er verðbólgan sem er undirliggjandi. Það er alveg sama af hvaða ástæðum hún er, ef verðbólgan er svona mikil hefði fólk misst húsnæði sitt, alveg sama þótt engin verðtrygging hefði verið. Sveiflurnar og óstöðugleikinn eru vandamálið.

Hér er rætt líka um hvað skiptir máli með trúverðugleika. Það er alveg rétt, trúverðugleiki skiptir máli og framtíðarsýn. En við þær aðstæður að við búum við gjaldeyrishöft, við þær aðstæður að við búum við litla sem enga tiltrú á gjaldmiðilinn og nýendurreist fjármálakerfi eru gríðarlega margir óvissuþættir í samfélaginu í dag. Ég er ekki sannfærður um að það borgi sig að bæta á þá. Ég held að flest mæli með því að við hugleiðum mjög vel næstu skref í þessu máli. Ég útiloka ekkert í því en ég á eftir að sjá sannfærandi rök fyrir því að afnám verðtryggingarinnar núna geti reynst annað en bjarnargreiði fyrir íslenska húsnæðiseigendur.