143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

fundur forseta með formönnum þingflokka o.fl.

[15:39]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er hin undarlegasta uppákoma að forustumenn ríkisstjórnarinnar hafi ekki náð því á ellefu dögum, hafi ekki fundið tíma til þess eða kannski ekki haft áhuga á því að nota tækifærið, og haft til þess eiginlega ellefu daga, í framhaldi af samkomulagi þarsíðasta fimmtudag, að þreifa eitthvað fyrir sér um lausn á þessu máli. Eða er þetta mál kannski orðið munaðarlaust?

Venjan er sú að flutningsmaður sem í þessu tilviki er hæstv. utanríkisráðherra, og hér er um að ræða stjórnartillögu í stóru máli, reynir að leggja eitthvað á sig til að koma málum sínum áfram. Það getur varla verið hlutverk stjórnarandstöðunnar að hafa frumkvæði að því að koma stjórnartillögum áfram. Hverju sætir þá að hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra — eða hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem ég geri ráð fyrir að hafi gegnt störfum í fjarveru hæstv. forsætisráðherra í útlöndum — að enginn þessara manna hefur lyft litla fingri? Tímabundnar fjarverur í útlöndum eru engin afsökun. Ekki er skútan stjórnlaus á meðan, eða hvað? Það gegnir einhver fyrir þá. Það er einhver forsætisráðherra í landinu hverja einustu mínútu hvern einasta sólarhring ársins og það hefur væntanlega verið hans hlutverk (Forseti hringir.) að hafa hér frumkvæði. Ég tel að okkur sé skulduð skýring á því, forseti, hvers vegna sú staða kemur upp.