143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

aðildarviðræður við ESB.

[16:20]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég óska hv. þingmanni til hamingju með jómfrúrræðu sína og ánægjulegt að hún skuli snúast um það hvað er rökrétt og hvað ekki.

Það er ekki rökrétt eins og ég hef reynt að útskýra og fjölmargir fleiri, þar með talið og ekki hvað síst Evrópusambandið sjálft, að vera í viðræðum til að reyna að komast inn í Evrópusambandið, vera í viðræðum um það hvernig stjórnvöld ætla að uppfylla skilyrði til að fá aðild að Evrópusambandinu, viðræðum um það hvenær stjórnvöld ætla að vera búin að uppfylla skilyrðin, uppfylla reglurnar upp á 100 þúsund blaðsíður. Það er ekki rökrétt fyrir stjórnvöld sem eru andsnúin aðild að Evrópusambandinu að vera í viðræðum um að komast þar inn. Það er mjög órökrétt. Það þarf ekki að hafa mín orð fyrir því. Það er hægt að leita í allt það efni sem er að finna á heimasíðu stækkunarstjóra Evrópusambandsins, í bæklingum sem stækkunarstjóri Evrópusambandsins hefur gefið út eða og ekki hvað síst í þeirri ágætu skýrslu sem Hagfræðistofnun háskólans vann fyrir utanríkisráðherra og hefur verið kynnt hér í þinginu.

Hið rökrétta í málinu er að sækja um aðild að Evrópusambandinu þegar menn vilja ganga þar inn. Þess vegna er mjög órökrétt að sækja um aðild og reyna að komast inn í sambandið ef menn vilja ekki að þær viðræður beri árangur.