146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:39]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur fyrir mjög góða ræðu. Margt sem kom þar fram vekur athygli. Mig langaði fyrst að minnast á að í máli hennar kom fram að hún gerði athugasemdir við að spáaðilar notuðu allir sama spálíkanið. Það sem gerist þá er að spáin verður mjög lík, bæði spá um hagvöxt, einkaneyslu, fjárfestingar og annað slíkt. Það munar í raun svo litlu að það er jafnvel upp á 0,2–0,3%. Svo þegar þjóðhagsspá er endurskoðuð er hagvöxturinn jafnvel 3–4% hærri.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvað telur hún að væri hægt að gera til að bæta úr þessu? Það er auðvitað mjög mikið hagsmunamál fyrir þjóðarbúið að það sé einhver breytileiki þarna á milli, sérstaklega þegar er verið að endurgera þjóðhagsspána og það er svona mikill munur á henni.