146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:23]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þetta. Ég hef einmitt heyrt athugasemdir frá fyrrverandi föngum um að með uppbyggingu Hólmsheiðar og lokuðu öryggisfangelsi hafi menn að einhverju leyti horft meira vestur til Bandaríkjanna eftir fyrirmynd en til nágrannaríkja okkar eins og Noregs sem var nefndur hér. Það kom mjög á óvart að heyra hversu lága upphæð þyrfti til að áfangaheimilið Vernd gæti tekið við fleiri föngum til að hjálpa einstaklingum að ljúka sinni afplánun. Það er líka annað sem mér fannst sláandi sem þingmaðurinn nefndi að í fjármálaáætlun er horft til mjög gamallar tölfræði til að byggja markmiðsgreiningu eða aðgerðir á. Maður hefði vonast til þess að vandað hefði verið betur til verka en hér er gert. Bara þessi punktur sem hv. þingmaður nefndi varðandi lækna og að það sé skýrara hvernig við ætlum að stuðla að bættri geðheilbrigðisþjónustu fyrir fanga og jafnvel litlir hlutir (Forseti hringir.) eins og maður heyrði að hagsmunasamtök fanga kölluðu eftir. Það væru ekki til bækur, ekki neitt til afþreyingar, og kallað eftir gjöfum frá almenningi til að bæta úr því.