146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:21]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Nú tínast hv. stjórnarþingmenn inn í salinn og hliðarsal. Það er alveg grátlegt að það þurfi að ræða um fundarstjórn forseta til að svæla þingmenn, sem hafa skrifað undir meirihlutaálit og meirihlutaumsagnir í veigamesta þingmálinu sem við ræðum í dag sem eru fjarverandi í umræðunni, inn í þingsalinn til að þeir sitji hérna. Auðvitað eigum við að eiga samtal hérna og skiptast á skoðunum. Hv. þingmenn meiri hlutans hljóta að vera menn í það að standa fyrir skoðunum sínum og tala fyrir þeim. Til þess erum við hérna, að tala fyrir ólíkum sjónarmiðum og takast á um þau með rökum. Það er ekki hægt ef viðmælandinn er ekki á staðnum.