146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:06]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þó að ég sé vanur að grafa í jarðlög og reyna að greina eitthvað finn ég ekkert í þessari ríkisfjármálaáætlun um það sem hv. þingmaður nefnir. Ég hef hins vegar ákveðnar skoðanir á verkmenntun og það er náttúrlega stóra málið hér sem við höfum að sumu leyti vanrækt í langan tíma, að efla verkmenntun, auka þátttöku ungs fólks í verkmenntun.

Það sem blasir við núna er að verkmenntun er að færast meira og meira á hendur fyrirtækjanna sjálfra, þar sem straumlínulögun er á náminu, stytting, aukinn hagnaður, hraðari námsframvinda, minna faglegt eftirlit hinna eiginlegu fagaðila í hinum sérstöku iðngreinum, þ.e. helst á að útrýma meistarakerfinu og ekki bara það heldur líka að fækka löggildingum, hætta að löggilda töluvert margar iðngreinar. Allt þetta gerir það að verkum að verkmenntun hér er í verulegri hættu, að mínu mati, þegar kemur að innihaldi og skipulagi.

Við sjáum líka hvernig iðnskólarnir hafa smám saman verið að færast á hendur einkaaðila, sem ég er ekkert endilega að gagnrýna sem slíka heldur bara fyrirkomulagið. En í þessu er þessi ríkisfjármálaáætlun nánast autt blað og ég auglýsi eftir breyttum vinnubrögðum þar. Ef við ætlum að efla menntun almennt gildir það ekki eingöngu um bóknám eða háskólanám, það gildir ekki síst um verkmenntun.