148. löggjafarþing — 71. fundur,  8. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[11:52]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Við ljúkum hér umræðu um fjármálaáætlun 2019–2023 sem er, samkvæmt lögum um opinber fjármál, formleg stefna stjórnvalda til næstu fimm ára. Í áætluninni leggur ríkisstjórnin til útgjaldaramma fyrir fjárlög og mælanleg markmið fyrir stefnu sína. Þegar lög um opinber fjármál voru sett var væntingin sú að umræðunni um fjárlög yrði dreift yfir vorþing til þess að létta álagi á haustþingi, til þess að fjárlagavinnan fengi heildstæðari úrvinnslu yfir árið. Því miður hafa atburðir undanfarinna ára haft dálítil áhrif á fjármálaumræðuna á undanförnum árum. Kosningar að hausti og ríkisstjórnarmyndun ofan í árslok 2016 takmörkuðu tímann til að samþykkja fjárlög fyrir áramót. Áhrifin á bæði fjármálastefnu og fjármálaáætlun urðu væntanlega einhver þar sem mun minni tími gafst fyrir síðustu tvær ríkisstjórnir, núverandi og síðustu, til að setja fram stefnu sína samkvæmt skilyrðum laga um opinber fjármál. Nú er það svo að umræðutíminn hér um þessa fjármálaáætlun er áætlaður einstaklega lítill. Umræðutími fyrir síðustu fjármálaáætlun, sem einnig fékk tiltölulega lítinn undirbúning, var tæpur 61 klukkutími. Fyrir þessa umræðu sýnist mér stefna í 33 til 34 klukkutíma.

Ég skil vel að ríkisstjórnin hafi lítinn áhuga á að ræða fjármálaáætlunina sína í þingsal, þrátt fyrir stór orð um gríðarlega útgjaldaaukningu. Ég hefði haldið að ríkisstjórnin myndi vilja tala sem mest um hvaða frábæru verkum hún ætlaði að ná fram með öllum þessum útgjöldum. Þar er talað um 117 milljarða kr. útgjaldaaukningu á rekstrargrundvelli. Gögn sem fjárlaganefnd fékk um svokallað grunndæmi, sundurliðuð skuldbundin útgjöld frá útgjöldum samkvæmt stefnu stjórnvalda, sýna hins vegar bara um 78 milljarða kr. aukningu frá fjárlögum 2017 til loka fjármálaáætlunar og bara 54 milljarða útgjaldaaukningu á tímabili fjármálaáætlunar. Það lítur enn út fyrir að vera stór tala en þetta er uppsöfnuð tala fyrir fimm ár. Það þýðir að útgjöld eru aukin varanlega um rétt rúmlega 10 milljarða í upphafi fjármálaáætlunar. Á sama tíma er til dæmis vaxtakostnaður að minnka um 20 milljarða á milli áranna 2017 og 2018.

Ég skil alveg að ríkisstjórnin vilji forðast að tala um fjármálaáætlun til að þurfa ekki að útskýra hvernig 10 milljarða kr. aukning geti flokkast undir stórsókn í hinum ýmsu málaflokkum. Ég skal endurtaka þetta til þess að það misskiljist ekki. Ef grunnútgjöld ríkisins, þegar skuldbundin verkefni eru tekin frá, lífeyrisskuldbindingar og fleiri atriði sem er ekki hægt að komast hjá, sama hvaða ríkisstjórn á í hlut, standa eftir 54 milljarðar sem stefna ríkisstjórnarinnar kostar á tímabili fjármálaáætlunar. Auðvitað er það óþægilegt fyrir ríkisstjórnina, að fá umræðu þegar bent er á þetta. Með þessum 54 milljörðum þarf ríkisstjórnin að ná markmiðum sínum samkvæmt stjórnarsáttmála, umfram það sem áður var ákveðið. Þá stefnu er einnig að finna í fjármálaáætlun. En ég skil einnig af hverju ríkisstjórnin hefur engan áhuga á langri umræðu um stefnu stjórnvalda eins og hún birtist í fjármálaáætlun. Af því að það vantar kostnaðargreiningar og skýr og mælanleg markmið. Það er mjög hentugt að segja ekki hvaða markmiðum á að ná, skella bara 54 milljarða kr. verðmiða á það og vona það besta. Það er nefnilega þannig að ef þú segir ekki hvaða árangri þú ætlar að ná mistekst þér aldrei.

Lög um opinber fjármál krefjast þess hins vegar að stjórnvöld segi hvaða árangri þau ætla að ná. Alþingi á að krefjast þess af stjórnvöldum að þau segi hvaða árangri þau ætla að ná, þingmenn eiga að krefjast þess, þjóðin á að krefjast þess, annars stjórnumst við að hentistefnu, geðþótta og áróðri um 117 milljarða þegar hið rétta er 54 milljarðar, annars verða bara úthlutanir úr almennum varasjóðum í reddingar vegna lélegra áætlana, annars verðum við stöðugt að elta skottið á okkur, að bregðast við jafnóðum — skítamix og fúsk. Við eigum ekki að láta okkur komast upp með þetta. Það er ekkert auðvelt að gera betur. En við eigum samt að krefjast þess af okkur. Ekki detta í meðvirkni og afsakanir, ekki detta í ýkjur eða gluggaskreytingar, ekki detta í útúrsnúninga og rökvillur. Ég er hér að tala til okkar allra, líka til mín. Við berum saman ábyrgð á því verkefni sem Alþingi er falið samkvæmt stjórnarskrá. Við fylgjum sannfæringu okkar í verki, ekki bara í orði.

Virðulegi forseti. Segjumst ekki bara ætla að gera betur næst, gerum betur strax. Vísum þessari fjármálaáætlun aftur til ríkisstjórnarinnar, krefjumst betri vinnubragða núna, ekki bara næst, við vitum öll að það er ekki hlustað á þann sem lætur alltaf vaða yfir sig.