149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[15:12]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég verð bara að segja að hv. þingmaður er ekki nægilega upplýstur um þetta mál. Það er búið að láta reyna á það fyrir dómstólum og vogunarsjóðirnir töpuðu þeim málum. Þetta veit hv. þingmaður. Við erum því í fullum rétti til að halda því til streitu að hér fari aðilar út á sama gengi og aðrir. Það varðar ekkert trúverðugleika okkar erlendis, einhvern neikvæðan trúverðugleika. Það varðar miklu frekar þann trúverðugleika að við stöndum á rétti okkar. Við höfum fullkominn rétt til þess að standa á honum. Þessir vogunarsjóðir eru í flestum tilfellum þess eðlis að þeir svífast einskis. Það kunna að vera einhverjir aðrir þarna inn á milli sem eiga einhverjar upphæðir. En vogunarsjóðirnir munu reyna allt og við sjáum það þegar þeir reyna að hafa áhrif á kosningar hér á landi að þeim er algerlega sama um allt sem heitir siðferði í þessum efnum. Þetta veit hv. þingmaður og ég skil ekki að hann skuli hafa áhyggjur af því að þetta varði trúverðugleika okkar. Þvert á móti.