149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[15:20]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það væri ágætt að þingmenn sem sitja í þingsalnum og flissa að ræðum annarra þingmanna kæmu upp og skýrðu mál sitt, hvers vegna við eigum að samþykkja þetta.

Ég velti hins vegar ýmsu fyrir mér og varpa fram spurningum sem ég veit ekki hvort hv. þingmaður getur svarað því að ekki hafa komið svör frá þeim sem vilja að þetta mál verði samþykkt. En ég held að það sé einn ráðherra í salnum og þakka fyrir að það sé staðgengill fjármálaráðherra sem hér er mætt og mun vonandi koma inn í umræðuna og reyna að svara einhverjum spurninganna.

Meðal þeirra spurninga sem hafa komið fram í umræðunni af hálfu þingmanna Miðflokksins er hvers vegna verið sé að verðlauna þá vogunarsjóði eða eigendur krónueigna sem sátu eftir, sem sinntu engu því sem var lagt af stað með. Hvers vegna er verið að verðlauna þá? Er mögulega verið að gefa þeim einhverja milljarða króna með því að leyfa þeim að hagnast á því að hafa setið eftir og beðið? Hvers vegna var því plani ekki fylgt sem lagt var af stað með í upphafi? Hvaða áhrif kann þetta að hafa á gengi krónunnar? Hefur það engin áhrif? Hvers vegna er það þá ekki rökstutt í nefndarálitinu eða í frumvarpinu sjálfu? Hvers vegna eru engin varúðarorð frá Seðlabankanum í frumvarpinu sjálfu heldur aðeins vitnað í umsögn um frumvarpið sem var unnin í samráði við Seðlabankann? Hvaða áhrif hefur þetta á núgildandi fjármálaáætlun og þá sem er í vændum? Þetta eru bara nokkrar spurningar af þeim fjölmörgu sem hafa verið settar fram og enginn fylgjandi þessa máls hefur látið svo lítið að koma upp og svara þeim.

Hér kemur hv. þm. Þorsteinn Víglundsson í andsvar við hv. þm. Birgi Þórarinsson. Ég skora á þingmanninn að koma upp og halda ræðu þannig að við getum spurt hann út í það hvers vegna við eigum að samþykkja málið. Þá getur hann fært rök fyrir máli sínu og við kannski fengið svör við mörgum spurninganna sem við höfum komið með.

Annars virðist sem (Forseti hringir.) vinstri flokkarnir séu allir saman í þessu og svo stjórnarflokkarnir.