149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[15:26]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og tek undir með honum, það er engum spurningum svarað. Í greinargerðinni er fullyrðing um að frumvarpið komi ekki til með að hafa nein áhrif á stöðu ríkissjóðs. Ég bendi á að sú fullyrðing getur tæpast staðist vegna þess að alveg ljóst er að gengið mun gefa eftir, við vitum bara ekki hversu mikið. Það hefur áhrif á ríkissjóð. Öll aðföng sem keypt eru erlendis frá — þetta hefur áhrif á ríkissjóð. Það er mjög mikilvægt að við fáum svör, einhvers konar sviðsmynd um það hvað ætla megi að gengi krónunnar muni falla mikið.

Þetta hefur líka veruleg áhrif inn í fjármálaáætlun. Fjármálaráðuneytið kom fyrir fjárlaganefnd fyrir skömmu þar sem ræddir voru áhættuþættir í fjárlagagerðinni. Þar var hvergi minnst á þennan þátt. Þetta er hins vegar stór áhættuþáttur sem verður að fá (Forseti hringir.) svör við hver gæti orðið og hversu mikill og hverjar afleiðingarnar gætu orðið.