149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[15:35]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég sé svo sannarlega eftir þessum fjármunum. Þeir gætu sem best hlaupið á tugum milljarða. Því hefur verið varpað fram í umræðunni að miðað við það gengi sem fyrri viðskipti í uppboðum áttu sér stað á væri hér um mjög umtalsverðar fjárhæðir að tefla.

Ég vil leyfa mér að nefna það í þessari umræðu að ég hef beitt mér fyrir átaki í húsnæðismálum aldraðra eins og það snýr að dvalar- og hjúkrunarheimilum. Í þeim efnum blasir við alvarlegur skortur, ekki síst vegna þess að menn hafa tekið þann kost nánast allt frá hruni að nota stóran hluta af ráðstöfunarfé Framkvæmdasjóðs aldraðra til annars en nýbygginga og viðhalds, nota það í rekstur. Það frumvarp sem ég hef mælt fyrir og er nú í hv. velferðarnefnd, geri ég ráð fyrir, miðast við að sjóðurinn búi að þessu fé. Þeir fjármunir sem við erum að tala um hér myndu ósköp einfaldlega gera það að verkum að það væri, eins og sagt er, landsýn í því máli.

Hv. þingmaður spyr hvers vegna menn hafi uppi áform um eftirgjöf á umtalsverðum fjármunum, mikilvægum hagsmunum. Mér finnst líka ástæða til að spyrja: Hvers vegna þykir öðrum sem hafa þá stöðu að eiga að ástunda stjórnarandstöðu þetta svo sjálfsagt sem raun virðist bera vitni?