149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[15:40]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni fyrir prýðisræðu. Hann lyfti þessu plaggi í upphafi ræðu sinnar, möppu sem útbúin var árið 2015 um losun fjármagnshafta og áætlun um þá vegferð. Var mikil og breið sátt um það og virkaði það mjög vel. En síðan var tekin U-beygja á vissum tímapunkti, eins og oft hefur komið fram, og þá breyttust málin.

Af því að þingmaðurinn var að veifa þessu plaggi og vitna í það langar mig einnig til að gera það. Þar stendur í upphafi, með leyfi forseta:

„Í dag er kynnt þríþætt leið losunar fjármagnshafta og byggir á heildstæðri áætlun til að bregðast við vanda sem ógnar stöðugleika. Ríkir almannahagsmunir liggja að baki heildstæðri afnámsáætlun stjórnvalda.

1. Stöðugleikaskilyrði og skattur slitabúa fallinna fjármálastofnana.

3. Endurfjárfesting í skuldabréfum til langs tíma og gjaldeyrisuppboð.

3. Auknar heimildir innlendra aðila til erlends sparnaðar og fjárfestingar.

Losun fjármagnshafta mun fara fram án beinna áhrifa á gengi íslensku krónunnar. Losun hafta er brýnt úrlausnarefni með vísan til stjórnskipulegs réttar og skyldu stjórnvalda til að gæta hagsmuna íslensks samfélags.“

Mig langar að spyrja þingmann: Hvert af þessum þremur atriðum, jafnvel fleiri, sem ég nefndi má segja að séu virk í dag?