149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[15:46]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég gleðst yfir því að fá tækifæri til að víkja að því hugtaki sem hv. þingmaður nefndi, eigendur aflandskróna. Ég ætla að segja það hér að mér er svo nákvæmlega sama hverjir þessir eigendur eru. Og mér er nákvæmlega sama hvernig þeir kunna að verða innréttaðir.

En það sem mér er ekki í sama um er hvort hér sé fylgt grundvallarreglu. Hún heitir jafnræðisreglan, eitt skal yfir alla ganga. Þannig var lagt upp með þessar aðgerðir að menn yrðu hver og einn — þegar ég tala um menn er ég líka að tala um lögaðila — að leggja nokkuð á sig til þess að komast út úr þessu efnahagsáfalli. Þannig var það lagt upp. Það var hugsunin að baki þeirri leið sem valin var, uppboðsleiðinni, við að gera upp þetta aflandskrónuvandamál. Það vekur upp mjög alvarlegar spurningar að horfið skuli vera frá því núna. Ég hlakka til að heyra nánar frá því frá hæstv. ráðherra sem er í salnum.