149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[16:17]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Við höldum áfram að kalla eftir afstöðu og svörum við spurningum sem hafa verið lagðar fram. Við höfum gert okkar besta í að svara þeim sjálf, reynt að geta í eyðurnar. Þetta er reyndar þekkt hér, getið hefur verið í eyður í þingsal nokkrum sinnum áður og jafnvel á öðrum stöðum í húsinu. Við förum ekkert út í hver gerði það.

Í frumvarpinu kemur fram að markmið breytinganna sé að rýmka heimildir aflandskrónueigenda. Auðvitað er kjarninn sá að verið er gefa eftir fjármuni. Þær heimildir sem eru til staðar eru ekki nýttar til fulls, því miður. Það er svolítið kostulegt hversu mikill samhljómur er á milli annars vegar þeirra fáu hugmynda eða orða sem við höfum fengið í andsvörum eða þegar við höfum fengið fólk til að tala við okkur og hins vegar hópsins sem talaði um glæsilega Icesave-samninga og taldi að við ættum að samþykkja þá, vildi að við gengjum í Evrópusambandið. Þeir vilja núna að málið renni í gegn, að þetta sé orðið gott, að við þurfum ekkert að gera þetta lengur eða hafa áhyggjur af erlendum fjárfestingum. Það er kunnuglegt stef. Við höfum heyrt áður að ef við gerum þetta ekki kunni erlendar fjárfestingar að dragast saman eða menn að hverfa frá. Hv. þingmaður man eftir því þegar því var spáð að Ísland yrði Kúba norðursins, held ég að það hafi verið orðað á sínum tíma, ef við samþykktum ekki Icesave-samningana. Hagfræðingur einn kom í sjónvarpsviðtal og spáði nánast öllu nema svartadauða ef þeir yrðu ekki samþykktir eins og lagt var upp með.

Það er með ólíkindum að maður skuli vera kominn með sömu tilfinningu núna, að menn séu komnir á sama stað, að það sé í lagi að fórna ákveðnum hagsmunum til að klára eitthvert leiðindamál án þess að færð hafi verið rök fyrir því í umræðunni af hálfu þeirra sem eru að reyna að selja okkur málið að það sé á einhvern hátt réttlætanlegt að hverfa frá þessu, þeim milljörðum sem kunna að vera undir þarna, að það sé einhvern veginn réttlætanlegt að ganga alla leið þrátt fyrir mismuninn á því sem hægt er að ná og því sem þessir aðilar vilja sætta sig við.

Þetta eru vissulega miklu lægri tölur en voru í umræðunni um Icesave-samningana en engu að síður tölur sem skipta máli, því að eins og bent hefur verið á má gera ýmislegt fyrir slíka fjármuni. Á sama tíma og ákveðnir flokkar eða talsmenn þeirra hafa talað fyrir aukinni skattlagningu á fyrirtæki og einstaklinga neita þeir sér um þessa fjármuni frá erlendum aðilum. Vissulega er rétt að þeir kunni að vera fleiri en einn og mismunandi að stærð og gerð en engu að síður eru þetta allt aðilar sem sitja við sama borð þegar kemur að slíkum málum.

Hagsmunir Íslands í málinu eru að sjálfsögðu þeir að halda til streitu því plani sem lagt var upp með. Það hefur enginn af þeim hv. þingmönnum sem eru fylgjandi málinu komið í ræðustól og sagt við okkur að ekki sé hægt að hverfa til baka til upprunalega plansins. Það hefur enginn sagt að ekki hægt sé að krefjast 190 kr. fyrir evruna eða 220 kr. eða 100 kr. eða guð má vita hvað. Það hefur enginn komið og sagt hvað sé hægt að gera. Menn hafa hvorki varið málið með nokkrum einasta hætti né reynt að selja það. Við hljótum að áætla sem svo að hægt sé að nýta þær heimildir sem samþykktar voru upphaflega.

Virðulegur forseti. Því miður læðist að manni sá grunur að þeir sem eru fylgjandi málinu séu enn þeirrar skoðunar að ástæðulaust sé að ræða það, að ástæðulaust sé að þeir færi rök fyrir því hvers vegna við eigum að samþykkja það. Það læðist að manni grunur um að það séu samantekin ráð að gera það ekki, að vinstri flokkarnir í stjórnarandstöðunni og ríkisstjórnarflokkarnir séu orðnir sammála um að keyra málið í gegn. Enda er ákveðinn samhljómur milli allra þeirra flokka þegar kemur að yfirþjóðlegu valdi, eða flestra þeirra í það minnsta, ég ætla að leyfa mér að setja sviga utan um Sjálfstæðisflokkinn vegna þess að þar hafa menn stundum verið veiklundaðir.

Virðulegur forseti. Ég næ ekki að klára það sem ég ætlaði að segja og óska eftir að verða settur aftur á mælendaskrá.