149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[16:25]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég verð að viðurkenna að það situr dálítið öfugt í manni að verða að upplifa þetta, að hér séu þingflokkar sem hafi sig mikið í frammi í tengslum við fjármálaáætlun og fjárlög, vilji sækja þar í óinnheimtar tekjur sem oft og tíðum er talað um sem gjafir til handa hinum ýmsu hópum, sérstaklega er vinsælt að tala um milljarðagjafir til útgerðaraðila.

Það er alveg magnað að fylgjast með því núna að þar sé skilað fullkomlega auðu, að þögnin sé algjör. Eina ræða Samfylkingarmanna var andsvar, ef ég man rétt, frá hv. varaþingmanni, Einari Kárasyni, þar sem hann virtist nú klikka á því að telja Sverri Hermannsson, fyrrverandi þingmann, hafa talað sem lengst um z-una en hann talaði um grunnskólalögin. Það var allt efnislega innleggið í þessa umræðu frá Samfylkingunni sem aðra daga telur sig vera fullfæra um að sækja tekjur hvert sem er.