149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[16:29]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þar sem ég var í ríkisstjórn á þessum tíma fylgdist ég mjög óþreyjufullur, að sjálfsögðu, með því sem þarna fór fram, fylgdist með því hversu illa gekk að fá hið blessaða kerfi, sem við köllum svo, til að fara þá leið sem stjórnvöld vildu fara. Það var einhvern veginn þannig að allir flækjufætur kerfisins sammæltust um að reyna að fara einhverja aðra leið en þarna var lagt upp með. Það tók allt of langan tíma að hrinda þessu í framkvæmd, það er alveg ljóst og það sem gerðist á þessum tíma var að menn unnu einfaldlega, held ég, ekki nógu hratt, það var reynt að flækja hlutina allt of mikið sem gerði að verkum að hlutirnir gengu of hægt fyrir sig. Það sem skiptir kannski meira máli í þessu öllu, ef við horfum á dagsetningar, er stefnubreytingin sem varð þegar leið á sumarið 2016. Þá allt í einu varð bara algjör stefnubreyting í þessum málum öllum saman.