149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[16:31]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt, ég las eina af þessum fréttum og það var ekki hægt að lesa út úr henni nein haldbær rök frá Seðlabankanum um að eitthvað stórkostlegt væri að gerast, enda höfum við svo sem fengið fregnir af því innan úr fjármálamarkaðnum að menn þar hafi yppt öxlum yfir því hreinlega um hvað væri verið að tala.

Það er hins vegar ekkert nýtt að menn setji málin fram með þessum hætti, jafnvel án rökstuðnings. Síðast var allt í kaldakoli hér 14. desember þar sem keyra þurfti þetta sama mál í gegn. Næstu skref verða væntanlega þau að á endanum verður þetta mál samþykkt, hvenær sem það verður. Það endar að sjálfsögðu þannig. En vonandi, áður en það gerist, fáum við einhver svör við þeim spurningum sem við höfum spurt hér. Ef við fáum ekki að vita hvað býr hér í rauninni undir og fáum ekki rökin fyrir málinu verðum við að vera á móti því og greiða atkvæði gegn því.