149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[16:48]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að ramma þetta mál býsna vel inn í þau fjögur atriði sem hann nefndi í ræðu sinni. Eitt hefur vakið mér nokkra furðu í þessari umræðu allri. Í fyrsta lagi virðist sem einhverjir haldi að við þingmenn Miðflokksins séum í þessari umræðu af einhverjum annarlegum hvötum, einhverri hagsmunagæslu fyrir einhverja ónefnda aðila sem auðvitað er ekki. Hagsmunagæsla okkar í þessu máli snýr að þjóðinni, ríkinu, fjármálum ríkisins o.s.frv. Eitt sem hefur vakið sérstaka athygli mína við þessa umræðu alla er að enginn af þeim sem virðast ætla að styðja þetta mál eins og það liggur fyrir núna hefur komið til umræðunnar. Enginn hefur komið hingað inn og sagt við okkur: Þið hafið rangt fyrir okkur í þessu máli, þið eruð að vaða reyk. Þetta er tóm tjara.

Enginn hefur komið inn í þessa umræðu með þau skilaboð.

Svo virðist sem þetta þingmál eins og það liggur fyrir hafi víðtækan stuðning innan þingsins. Ég velti þess vegna fyrir mér og spyr hv. þingmann hvort hann eigi skýringu á því að fyrst svo er ekki, fyrst enginn treystir sér til að koma inn í umræðuna og skýra fyrir okkur og öllum öðrum hvers vegna hann styður þetta mál af svo mikilli festu, hvers vegna stuðningsmönnum málsins sé svo mikilvægt að þetta mál fái þá flýtimeðferð, sem ég kalla svo, að það liggi á að leysa þetta mál í fyrradag.