149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[16:54]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Það yrði að mörgu leyti skemmtilegt ef menn ætluðu að taka slaginn um þessa útreikninga vegna þess að þeir eru ekkert mjög flóknir. Það er ýmislegt flókið í málinu en þessir útreikningar eru það ekki. Ég hugsa að það skýri að meginhluta til af hverju enginn hefur komið hingað upp og vefengt þá.

Þingmaður Viðreisnar kom hingað fyrr í dag, hv. þm. Þorsteinn Víglundsson, en hann fór svo hóflega um í pontu að hann taldi okkur Miðflokksmenn hafa talað í rúmar 14 klukkustundir í gær og að það hefði allt verið tóm vitleysa ef ég man orðanotkun hv. þingmanns rétt. Svona málflutningur dæmir sig sjálfur og ég geri ekkert með hann.

En bara til að koma aftur að því atriði sem snýr að því af hverju menn hafa ekki gagnrýnt þessa útreikninga held ég að það sé fyrst og fremst af því að þeir eru ekki mjög flóknir, þeir liggja bara fyrir og eru svona þannig að menn verða þá væntanlega að gagnrýna eitthvað annað.